Með heiminn í baksýnisspeglinum

Ingjaldur hefur merkt þá staði á landakorti með svörtu sem …
Ingjaldur hefur merkt þá staði á landakorti með svörtu sem hann á eftir að heimsækja, en rauðu þau sem hann hefur heimsótt. Öll lönd eru nú rauð. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Ingj­ald­ur Hanni­bals­son, pró­fess­or og fyrr­ver­andi deild­ar­for­seti viðskipta­fræðideild­ar Há­skóla Íslands, kom á sunnu­dag­inn heim úr sex vikna ferðalagi. Með ferðalagi batt hann enda­hnút­inn á margra ára verk­efni, að heim­sækja öll 193 þátt­töku­lönd Sam­einuðu þjóðanna.

Áður en hann hélt af stað átti hann sex lönd eft­ir á list­an­um. Á meðal þeirra voru lönd sem erfitt get­ur reynst að heim­sækja, meðal ann­ars Írak, Af­gan­ist­an, Miðbaugs-Gín­ea og eyríkið Nárú, sem var fyrst á dag­skrá.

„Til þess að kom­ast til Nárú, þurfti ég að fara fyrst til Bris­bane í Ástr­al­íu því það er ein­ung­is flogið til Nárú þaðan. Landið er um fjög­urra tíma flug­leið í norð-austurátt frá Bris­bane. Það ligg­ur nokk­urn veg­inn við miðbaug í miðju kyrra­haf­inu.“

Nárú er afar lít­il land og er hring­veg­ur­inn um­hverf­is eyj­una til að mynda aðeins 18 km að lengd. „Það tók mig 2 tíma að skoða eyj­una, en ég varð að vera þar í þrjá sól­ar­hringa, því það er aðeins flogið þangað tvisvar í viku,“ seg­ir Ingj­ald­ur og bæt­ir stutt­lega við um sögu eyj­unn­ar:„Þetta ríki var mjög ríkt á átt­unda og ní­unda ára­tugn­um því það voru marg­ar fos­fat­nám­ur þar. En þegar fos­fatið tæmd­ist, þá höfðu þeir ekk­ert annað. Ein helsta tekju­lind þeirra í dag er að passa hæl­is­leit­end­ur sem vilja kom­ast til Ástr­al­íu. Þeir eru þá send­ir til Náru þar sem þeir eru geymd­ir á meðan verið er að taka ákvörðun um það hvort þeir fái hæli eða ekki.“

Níu metra hár vegg­ur varði hót­elið

Eft­ir stutt stopp í Nárú var ferðinni heitið til Af­gan­ist­an. Flug­völl­ur­inn sem Ingj­ald­ur lenti á í Kabúl, hafði orðið fyr­ir árás tveim­ur dög­um áður. „Ég bjó á hót­eli ná­lægt flug­vell­in­um þar sem ör­ygg­is­mál­in voru í góðu lagi. Það er níu metra hár vegg­ur sem um­lyk­ur hót­elið og það var leitað á öll­um sem komu inn, bíl­ar skoðaðir mjög vand­lega, og inná hót­el­inu voru marg­ir vopnaðir verðir sem gættu þess að allt væri í lagi. Eft­ir að ég skráði mig inn á hót­elið fékk ég 15 mín­útna fyr­ir­lest­ur um ör­ygg­is­mál. Ég gat skoðað borg­ina og fékk bíl frá hót­el­inu og starfsmaður í mót­tök­unni kom með mér og sagði mér frá borg­inni. Það var góður eft­ir­miðdag­ur,“ seg­ir Ingj­ald­ur. 

Var í Sádí-Ar­ab­íu á Rama­dan

Þá lá ferð Ingj­alds til Riya­dh í Sádí-Ar­ab­íu, en hann hafði fengið boðsbréf frá Íslend­ingi sem starfar fyr­ir fyr­ir­tæki þar í landi. Það setti svip sinn á dvöl Ingj­alds í land­inu, að Rama­dan-hátíð múslima var í full­um gangi á meðan á dvöl hans stóð.

Það var eft­ir­minni­legt að hann fór með mig í versl­un­ar­miðstöð klukk­an tíu um kvöld, og þá var miðstöðin að lifna við.Vegna Rama­dan má fólk ekki borða frá klukk­an þrjú á morgn­anna til klukk­an sjö á kvöld­in. Þarna voru fjöl­skyld­ur með lít­il börn að koma og versla og leika sér í leik­tækj­um svo hún iðaði öll af lífi.“

„Á dag­inn var allt lokað, og ekk­ert að gera út af Rama­dan. Þegar ég skráði mig inn á hót­elið spurði ég hvenær væri morg­un­mat­ur. Þá svöruðu þeir: „Seven.“. Þá spurði ég: „Sjö til tíu?“ Þeir svöruðu: „Seven.“ Þá spurði ég aft­ur: Sjö til níu?“ „Seven,“ var aft­ur svarið. Ég fór niður um morg­un­inn og þá var eng­inn mat­ur, en klukk­an 7 um kvöldið báru þeir loks fram morg­un­mat­inn!“

Áhuga­verðustu staðir borg­ar­inn­ar voru lokaðir vegna hátíðar­inn­ar. „Það var eitt safn í borg­inni sem virt­ist vera áhuga­vert, og eitt gam­alt virki, en þetta var lokað. Hugs­an­lega opnaði þetta á kvöld­in, en ég vildi ekk­ert vera mikið á flæk­ingi eft­ir myrk­ur,“ seg­ir Ingj­ald­ur.

ISIS-liðar stefna í átt að borg­inni

Eft­ir að hafa skoðað Riya­dh lá för Ingj­alds til Íraks. Hann heim­sótti þar borg­ina Er­bil í Kúr­d­ist­an í Írak. Auðveld­ara er að sögn Ingj­alds að kom­ast inn í landið í Norður­hlut­an­um, því ekki þarf vega­bréfs­árit­un þar, öf­ugt við suður­hlut­ann og höfuðborg­ina Bagdad. 

„Í Er­bil var í sjálfu sér allt með kyrr­um kjör­um. Að vísu var heitt, en ég gat leigt mér bíl og fengið leiðsögu­mann sem sýndi mér borg­ina og ná­grennið. Það var mjög skemmti­legt,“ seg­ir Ingj­ald­ur en hann set­ur þó ástandið í sam­hengi við frétt­ir af ástand­inu sem nú rík­ir í Norður­hluta Íraks.

„Það hafa verið að ber­ast frétt­ir síðustu daga um að ISIS sé að nálg­ast borg­ina. Ég sá ein­hver staðar að þeir væru ekki nema um 25 km frá henni, þannig að á mjög skömm­um tíma hef­ur ástandið breyst mjög mikið.“ Ingj­ald­ur bæt­ir því við að hann hafi upp­runa­lega valið að fara til Er­bil því sú borg átti að vera ör­ugg.

Endaði ferðalagið á góðum veit­ingastað

Eft­ir að hafa skoðað Er­bil tók við dvöl í Mið-Evr­ópu þar sem Ingj­ald­ur fór á tón­list­ar­hátíðir í Bre­genz, Salzburg og Munchen. Þaðan lá svo ferð hans til Miðbaugs-Gín­eu, en afar erfitt get­ur verið að fá vega­bréfs­árit­un þangað. Á meðan á ferðalagi stóð, var hann stöðugt að vinna í því að fá árit­un þangað, og þann 15. júlí lá ljóst fyr­ir að það tæk­ist.

Í Miðbaugs-Gín­eu leigði hann bíl og skoðaði borg­ina. Hann ber fólk­inu í land­inu sög­una vel, líkt og raun­ar í öll­um lönd­um sem hann hef­ur skoðað. „Mér finnst fólkið alls staðar eins, fólkið er gott. Ef maður er kurt­eis og bros­andi þá fær maður aðstoð og fólk er vin­gjarn­legt á móti. Það er mín niðurstaða af þess­um ferðalög­um, að fólk er alls staðar eins.“

Frá Miðbaugs-Gín­eu lá leið hans til Saó Tóme, eyrík­is und­an strönd­um Níg­er­íu og Ga­bon. Var það síðasta ríkið af öll­um 193, og seg­ir hann að það hafi verið eina ríkið af þess­um síðustu sex sem hann heim­sótti, sem hann gæti hugsað sér að dvelja í yfir lengri tíma. Áfang­an­um var svo fagnað á veit­ingastað í land­inu. 

Lofts­lagið er þol­an­legt og landið er til­tölu­lega ör­uggt. Fólkið er vin­gjarn­legt og þarna fór ég aft­ur í dags­ferð um eyj­una og endaði á mjög skemmti­leg­um veit­ingastað sem væri tal­inn góður alls staðar í heim­in­um. Þannig að það var ágætt að enda þetta æv­in­týri með þeim hætti.“

Við tók svo 60 klukku­stunda ferðalag til þess að kom­ast heim til Íslands, þar sem hann lenti á sunnu­dag­inn síðastliðinn.

Man eft­ir öll­um lönd­un­um

Aðspurður hvort hann muni eft­ir öll­um lönd­un­um sem hann hef­ur heim­sótt, svar­ar hann því ját­andi.

Það er mesta furða. Einn sam­starfsmaður minn sendi ný­lega á alla starfs­menn deild­ar­inn­ar tölvu­póst með lista yfir öll lönd­in. Ég ákvað að renna yfir list­ann til að vera al­veg viss um að ekk­ert land hafi farið fram­hjá mér og þá kom í ljós að ég mundi hvað ég gerði í hverju ein­asta landi. Þótt sum lönd­in séu keim­lík, þá er mun­ur á milli þeirra.“

Haf­andi þessa reynslu, get­ur Ingj­ald­ur nú ferðast aft­ur til þeirra landa sem hon­um fannst skemmti­leg­ust. En hvaða lönd skyldu það vera?

Mér hef­ur þótt gam­an að fara til Egypta­lands og skoða forn­minjarn­ar, pýra­míd­ana og egypska safnið í Kairó. Mig lang­ar að fara þangað aft­ur. Svo var mjög gam­an að fara á safarí í Kenýu. Það er annað sem ég gæti hugsað mér. Síðan er Bras­il­ía í miklu upp­á­haldi, mig lang­ar aft­ur til Rio di Jan­eiro.“

Upp­á­halds­borg Ingj­alds er hins veg­ar öllu vest­rænni. „Ég get svo farið til New York hvenær sem er, það er upp­á­halds borg­in mín.“ 

Friðsælli en frétt­ir gefa til kynna

Reynsla Ingj­alds af fólki víðs veg­ar úr heim­in­um er afar góð. Hann seg­ir að oft sé viðmót heima­manna öðru­vísi en frétta­flutn­ing­ur gef­ur til kynna. Nefn­ir hann sem dæmi ferðalög sín til Írans, Rú­anda og Úganda. Það eru kom­in um 20 ár síðan ég fór til Írans og þegar ég fór þangað var ímynd­in orðin mjög slæm. Fólk var hissa á því að ég þyrði þangað og flest­ir bjugg­ust við að það yrði erfitt. Það reynd­ist mjög þægi­legt og skemmti­legt. Fólkið í Íran er vin­gjarn­legt og gest­risið. Maður var að labba í görðum í Teher­an og fólk stoppaði mig og bauð mér að setj­ast niður og drekka með sér te. Þetta held ég að ís­lend­ing­ar myndi seint gera gagn­vart út­lend­ing­um.“

„Ég var svo að tala við kunn­ingja minn sem hef­ur ferðast mjög víða og hann var sam­mála mér í því að Íran­ar séu mjög vin­gjarn­leg­ir. Hann sagðist hafa snætt á veit­ingastað og þegar hann ætlaði að borga, þá var hon­um sagt að ann­ar gest­ur væri bú­inn að borga fyr­ir hann.“

Ímynd margra Afr­íku­ríkja á vest­ur­lönd­um er slæm, en Ingj­ald­ur seg­ir það oft ekki eiga við rök að styðjast.

„Mér er minn­is­stætt þegar ég fór til Úganda. Ég hafði heyrt marg­ar hryll­ings­sög­ur frá land­inu, sem áttu ræt­ur sín­ar að rekja til þess þegar Idi Amin var þjóðhöfðingi og maður bjóst við því að and­rúms­loftið væri mjög þungt. Þvert á móti var létt yfir fólki.“

„Það sama gerðist í Rú­anda. Ég fór til Rú­anda árið 2012 til þess að heim­sækja fjallagór­illuapa. Það eru ekki nema 25 ár síðan millj­ón Rú­anda­manna voru myrt­ir. En þjóðin virðist vera búin að gera það mál upp og það var mjög ánægju­legt að ferðast þar.“

Ekki eru marg­ir sem hafa lokið þeim merka áfanga að heim­sækja öll rík­in 193, en Ingj­ald­ur tel­ur þá vera færri en 10 þúsund tals­ins. Ætlar hann nú að vinna úr þeim mörg þúsund ljós­mynd­um sem hann hef­ur tekið á ferðalög­um sín­um, og er stefn­an sett á að setja þær sam­an í bók.

 

Frá Erbil í Kúrdistan í Írak
Frá Er­bil í Kúr­d­ist­an í Írak Mynd/​AFP
Masmak-virkið í Riyadh var lokað vegna Rammadan þegar Ingjaldur heimsótti …
Masmak-virkið í Riya­dh var lokað vegna Ramma­dan þegar Ingj­ald­ur heim­sótti Sádí-Ar­ab­íu. Mynd/​Wikipedia
Malabo, höfuðborg Miðbaugs-Gíneu
Mala­bo, höfuðborg Miðbaugs-Gín­eu Mynd/​Wikipedia
Frá Saó Tóme
Frá Saó Tóme Mynd/​Wikipedia
mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert